top of page
Search
Writer's pictureEllen Margrét Bæhrenz

Kynning

Updated: Jun 24, 2021

Sæl og velkomin,

Þessi heimasíða er að mestu hugsuð sem lifandi ferilskrá, ef svo má að orði komast, en vegna þess að ég hef alltaf haft mjög gaman af bloggi ákvað ég að bæta því við. Það sem ég mun koma til með að deila fer eftir tilfinningunni hverju sinni. Það getur verið í tengslum við námið mitt, listina eða lífið; í formi texta, mynda, myndbanda eða hugleiðinga, en það kemur allt saman betur í ljós þegar fram í sækir.

Þetta fyrsta blogg ætla ég aðeins að nýta til að kynna sjálfa mig og minn bakgrunn. Ég heiti Ellen Margrét Bæhrenz, eins og ítrekað kemur fram á þessari síðu, og ég er 27 ára gömul vesturbæjarmær. Ég vil að það komi strax fram að ég er vatnsberi og að lífstalan mín er 5 sem gerir mig að „Hierophant“ í tarrottfræðunum fyrir þau sem hafa áhuga á svoleiðis. Annars er ég alin upp í vesturbænum í Reykjavík og bý þar enn ásamt Arnmundi, unnusta mínum og Krumma, syni okkar, sem er þriggja ára. Ég æfði ballett frá unga aldri og seinna líka nútímadans, og fór að taka því mjög alvarlega snemma á lífsleiðinni. Það var aukaæfingin sem skapaði meistarann í mínum huga og því æfði ég mikið. Ég var alltaf ákveðin í að verða atvinnudansari og var Listdansskóli Íslands því að einhverju leiti mitt annað heimili á unglingsárunum. Nítján ára útskrifaðist ég úr MH og Listdansskólanum og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá strax eftir útskrift vinnu við Íslenska Dansflokkinn. Það voru virkilega krefjandi en lærdómsrík ár sem ég átti þar, enda var ég lang yngsti dansarinn í flokknum á þeim tíma, en ég myndi aldrei skipta þeim út fyrir neitt annað. Ég held í sannleika sagt að ég hafi fengið meira út úr því sem dansari(og manneskja) að vera þar og læra af reynslunni og fólkinu í kringum mig en ég hefði getað gert í meira dansnámi, en ég fann það líka mjög sterkt að ég var tilbúin að takast á við umheiminn og mig langaði strax að byrja að vinna.

Eitt af því sem Dansflokkurinn færði mér var að vinna í leikhúsinu og það opnaði augu mín verulega. Ég var búin að einblína svo fast á dansinn fram að því að ég sá ekkert út fyrir það fag. Þegar sjóndeildarhringurinn víkkaði byrjaði ég að sjá glitta í möguleika í hverjum krók og kima leikhússins og allt í einu fann ég fyrir áhuga á öðrum listgreinum, pólitík, samskiptum, manneskjum, hinu og þessu. Ég fór að hafa áhuga á lífinu í heild sinni og það sem meira er; mig fór að langa til að gera meira en að dansa. Ég fór því í prufur fyrir leikarabrautina í LHÍ og notaði þar röddina mína í allra fyrsta skiptið, ef svo má segja. Ég fór ekki með neinar væntingar í þessar prufur og var alveg hreint viðbjóðslega stressuð, en komst einhvernvegin í 20 manna lokaúrtak. Ég fékk að endingu höfnun um skólavist en upplifði í þessum prufum eitthvað stórkostlegt. Ég kynntist nýrri tegund af list með öðru tjáningarformi en ég var vön, ég gat notað orðin mín og röddina mína á vegu sem ég hafði aldrei gert áður eða gert mér í hugarlund að ég gæti gert og ég öðlaðist nýja trú á sjálfri mér. Allt var eitthvað svo nýtt og magnað og geggjað og þá var það ákveðið. Ég ætlaði að verða leikkona.

Það var ekki fyrr en eftir að ég fór í prufur í þriðja skiptið að ég fékk loksins boð um skólavist og þó að það hafi tekið á að fá neitun tvisvar þá er ég ánægð með gang mála svona eftir á að hyggja. Í fyrsta lagi elska ég bekkinn sem ég lenti í, er virkilega ánægð með áherslurnar í náminu sjálfu sem hafa breyst töluvert síðan að ég fór fyrst í prufur sem og með leiðbeinendur mína. Í öðru lagi held ég að það sé öllum hollt að þurfa að hafa svolítið fyrir hlutunum, þá er maður tilbúnari þegar tækifærið gefst. Svo lærði ég mjög mikið á því að fá „nei“. Að þurfa að vinna úr þessari höfnunartilfinningu, að ákveða hvort ég ætli að leyfa henni að minnka mig eða hvort ég ætli að rísa upp fyrir hana og verða stærri en ég var. Eins og ein vitur kona orðaði svo fallega við mig, það væri alveg ómögulegt að ætla að bera í gegnum lífið bakpoka fullan af höfnunum eða „nei-um“, því ef við fáum höfnun á eitthvað þá er það ekki ætlað okkur og því óþarft að bera það með sér. Ég skyldi gjöra svo vel að taka þennan þunga bakpoka af mér undir eins.

Nú er ég við það að hefja þriðja og síðasta árið í þessu verðmæta námi sem hefur nú þegar kennt mér svo margt. Það er árið þar sem við eigum að mæta áhorfendum og hvað ég vona að það gangi allt saman upp hvað varðar COVID-19 mál, að veiran gefi okkur frelsi til að leika.

Sjáumst á fjölunum!

Kærleikskveðjur.


Ps. Ég læt fylgja hér mynd af mér og strákunum mínum, Adda og Krumma. Myndin var tekin fyrir u.þ.b. tveimur árum í 1 árs afmælisveislunni hans Krumma. Það er hreint ótrúlegt hvernig tíminn líður því tilfinningin er eins og þetta afmæli hafi verið í gær en nú hefur Krummi átt afmæli tvisvar sinnum síðan og við erum einhvernvegin öll búin að vaxa mjög mikið frá því þetta var.


71 views0 comments

Comments


bottom of page